mánudagur, 1. apríl 2013

Hittingur okkar pabba í Chile



Komið þið sæl kæru lesendur (og hlustendur(ef einhver er að lesa þetta magnaða blogg upphátt))
Núna eru liðnir sjö mánuðir í Argentínu og hefur margt gerst á þeim tíma og margt hefur á daga mína drifið. Eitt af því sem hefur gerst er að ég hef ekki alveg verið að gera skiptinámið eins og AFS vill. Ég er búinn að ferðast á eigin vegum, ég fékk kærustuna mína í heimsókn, ég bjó með öðrum skiptinema og fyrst ég var búinn að brjóta allar þessar "reglur" afhverju ekki að brjóta eina í viðbót, heimsækja pabba minn einn alla leið til Chile. (Ekki það að það sé bannað en AFS ráðleggur manni að hitta ekki neinn ástvin á meðan dvölinni stendur þvi það getur eyðilagt ferilinn og eitthvað kjaftæði með tilfinningarnar og blablabla.)
Föstudaginn 22. mars þegar ein vika var búin af skólanum mínum hélt ég af stað til Puerto Varas í suður Chile þar sem pabbi var búinn að vera vinna í eina viku áður en ég kom. Ég hélt einn til Buenos Aires með flugvél frá Tucuman þar sem ég bý. Þar tók ég flugvél til Santiago sem er höfuðborg Chile. Þetta gekk allt bara vel og allar flugvélar á réttum tíma. Loksins var komið að þriðja og síðasta flugi dagsins til Puerto Montt og þar hitti ég pabba eftir sjö mánuði í Argentínu. Auðvitað var gott að hitta gamla kallinn en samt skrítið að tala íslenskuna í persónu! Eftir endurfundina góðu keyrðum við til Puerto Varas sem er smáþorp þar sem vinur pabba býr og fórum við heim til hans til að hitta hann og fjölskyldu hans því í fyrrasumar komu þau í mat til okkar á Íslandi. Þar sem klukkan var orðin margt fórum við fljótt upp á hótel að sofa því við þurftum mikla orku helgina eftir. Um kvöldið var bara spjallað og etið íslenskt nammi á hótelherberginu.



Helgin var skemmtileg því við gerðum ýmislegt sniðugt. Á laugardeginum fórum við í bílferð, á bílnum sem vinur pabba hafði lánað okkur, upp að eldfjallinu Osorno. Þar voru teknar myndir og skoðað fossa sem komu úr ánni Petrohue sem rennur frá eldfjallinu. Chile er mjög eldvirkt land eins og Ísland og seinasta gos var 2009 og hafði það einnig áhrif á flug í suður Ameríku eins og Eyjafjallagosið á flug í Evrópu.

Um þrjúleitið fórum við í frábært river rafting sem var niður þessa á Petrohue. Það var í brjálæðistigi þrjú og hálft en náttúran í kring fékk toppeinkunn.
Eftir raftingið var boðið upp á snakk, kex og Pisco sour sem er þjóðar áfengi Chilebúa. Í raftinginu hittum við ameríkana sem þekkti Björk og Sigurrós eins og fullt af fólki sem ég hef hitt. 













Pápi ákvað svo að blæða í nautasteik í kvöldmat á veitingastaðnum Puro Toro og ef við beinþýðum það þá er það Hreina Nautið. Það var gott en auðvitað vinnur samt kjötið frá Agentínu enda er besta kjötið þaðan. Eitt skemmtilegt sem ég hef verið að upplifa hérna með pabba er að ég tala alltaf við þjónana eða hótelfólkið eða hvern sem er afþví enginn talar ensku og pabbi talar ekki spænsku þannig ég er alltaf sá sem fær reikinginn og spurður hvernig við viljum hlutina. Það má þá segja að ég sé orðinn stjórinn hehehe!



Við vorum svo heppnir að á sunnudeginum fór vinafjölskylda okkar með okkur í ferðalag í kringum vatnið Llanquihue þar sem við stoppuðum á frekar næs veitingastað með borði hlaðsins. Þar var étið á sig gat. 

Siðan var hringurinn kláraður og enduðum við á mjólkurbúi sem er í eigu vinavinafólks okkar. Þar sýndu þau okkur á hvernig allt virkaði og var það mjög fínt.





















Mánudagurinn og þriðjudagurinn voru frábærir en þá heimsóttum við eyjuna Chiloé. Við fóru yfir á bílaferju og á leiðinni sáum við höfrunga synda með bátnum. Syntum því miður ekki með þeim í þetta skipti.

Við vorum búnir að heyra af mörgæsaeyju þar sem er hægt að fara í bátsferð til að sjá þær. Jújú okkur þótti það nú spennandi og fórum í þessa bátsferð. Við sáum ekki meira né minna en eina auma mörgæs. Hún stóð á einhverjum kletti eins og illa gerður hlutur og leyfði okkur að taka myndir af sér. En eins og málshátturinn segir ; "Þótt mörgæsir hafi ekki sést, þá skemmtir maður sér sem best."



















Við gistum svo á náttúru hóteli þar sem allt rafmagn og vatn er búið til eða safnað á staðnum. Um morguninn leigðum við kayaka til að sigla niður eftir ánni Chepu. Hún rennur niður dal sem lenti í þeim óförum að árið 1960 kom stærsti jarðskjálfti sem mældur hefur verið á jörðinni og var hann 9,6 á richter. Við þennan jarðskjálfta seig landið niður fyrir sjávarmál og sjór flæddi yfir dalinn. Þetta olli því að allur skógurinn í dalnum lést vegna sjósins  Sorglegt fyrir fjölskyldu skógsins en gaman fyrir okkur því við fengum að róa í gegnum hálfgerðan trékirkjugarð og er auðveldara að skilja hvernig þetta var þegar þið sjáið myndirnar. En þetta var allavega gourmegaman. 
Við skoðuðum svo höfuðborg eyjunnar sem heitir Castro og þar gerði ég ein bestu kaup lífs míns. Ég fann þessa fínu skyrtu á ekki nema 3500 chílenska pesóa sem gera 800 kall !!! Ekkert nema hamingja.















Miðvikudaginn hófst svo ferðalagið okkar til Argentínu því gamli faðirinn vildi kynnast besta landinu. Ferðinni var haldið til Bariloche og San Martin de los Andes. Ég fór einmitt þangað í febrúar með AFS enda geysifallegir staðir. Á leiðinni til Bariloche upplifðum við eina af flottustu náttúrum sem við höfum séð. Enda er Andesfjallgarðurinn ekki einhver Esja, þótt Esjan sé nú ágætt. 
Þegar komið var til Bariloche var bara komið sér fyrir á hótelinu, tekinn bíltúr upp á skíðasvæðið (enginn snjór:-( ) og borðað humarsalat í kvöldmat. 











Daginn eftir fórum við í þriggja tíma hestatúr í kringum fjall hjá vatninu Nahuel Huapi. Náttúran og veðrið voru klikkuð en hestarnir voru óttalegar bykkjur og auðvitað var ég sá eini sem datt af baki. Fórum öll á stökk og hesturinn minn brunaði áfram eins og vindurinn og svo stoppuðu öll fyrir framan mig og minn hestur var greinilega með ABS bremsur því hann snarstoppaði á núll komma einni og ég skaust af. Lifði samt af. Þegar túrinn kláraðist var boðið í asado með öllu sem heyrir til og hann heppnaðist bara þrusuvel. 
Við tókum svo lyfturnar uppá aðal tindinn og sáum yfir allt saman. Allar eyjurnar á vatninu Nahuel Huapi, fjallgarðurinn og veðrið gerði þetta perfectisimo! Ég er að hugsa um að splæsa í eina eyjuna þarna og lifa þar bara það sem eftir er. Veiða mér til matar, vera með eina geit og búa til osta úr mjólkinni hennar og vera svo með einn þræl sem býr til rafmagn með því að hjóla á þrekhjóli.















Við kvöddum Bariloche með tár á vanga og héldum til San Martin de los Andes. Á leiðinni sáum við ýmislegt flott meðal annars hjartarhjörð sem við mynduðum í spænir.

Við gistum á hótelinu Plaza Patagonia og borðuðum pizzu napolitana um kvöldið.
Föstudagur skreið í garð og við keyptum minjagripi og svoleiðis í S.M. de los Andes. Til að komast aftur til Chile tókum við ferju eftir mjóa vatninu Pirihueico og komumst til Chile heilir á höldnu frá Argentínu. 
Það var enn löng leið til Puerto Varas svo við gistum í bænum Valdivia.
Úff mikið af flóknum nöfnum! 










Á laugardaginn var okkur boðið í dýrindis grillveislu hjá Jorge og Vanessu vinafólki okkar í tilefni að dóttir þeirra var að koma heim úr námi frá Englandi og lika auðvitað að hann var með gesti frá Íslandi.
Í veislunni var virkilega gaman og við kynntumst mikið af góðu fólki. 
Það var svo endað veisluna á að horfa á Jesus Christ Superstar í tilefni páskanna.










Sunnudagurinn ,seinasti dagurinn okkar, rann upp bjartur og fagur en fullur af sorg vegna kveðjustundarinnar óflýjanlegu. En allt gekk vel enda ekki langt þangað til við feðgarnir verðum saman á ný í júlí og enginn tilgangur að vera leiður. 
Flugin gengu öll vel nema á leiðinni til Buenos Aires hélt ég að ég myndi deyja. Í miðju flugi byrjaði vélin að hristast og sætisbeltaljósið kom upp og fyrir utan vélina sá ég þrumur og eldingar. Sjónvörpin í flugvélinni urðu óskýr og allir flugþjónarnir spenntu sig niður. Þetta var frekar óþægilegt en sem betur fer gerðist ekkert! 
Í Buenos Aires þurfti ég að bíða eina nótt og til þess að ég þyrfti ekki að hanga einn á flugvellinum þá talaði ég við íslensku stelpuna sem býr í Buenos Aires hana Ragnhildi og hún fór með mig og systur sína í bíó til að stytta biðina mína. Það var bara gaman og sáum við G.I. Joe. 
Bæði ég og pabbi komumst á okkar loka stað og var þetta frábær ferð í alla staði. Takk fyrir mig pabbi!

Núna eftir þetta páskafrí með pabba fer ég í skólann og hversdagslífið hefst á ný. Ég býð bara eftir næstu ævintýrum og vona að þessir seinustu þrír og hálfur mánuðir verða góðir. Allt gengur vel og er fjölskyldan áfram jafn góð og alltaf. Spænskan gengur líka vel og ætla ég að skrifa hérna smá á spænsku og sjá hvort þið skiljið eitthvað.

Hola a todos los que están leyendo mi blog. Gracias por leer sobre mi aventura que yo hice con mi viejo en Chile y Argentina. Fue un viaje espectacular y recordaré esta experiencia toda mi vida. 
Mi año de intercambio está pasando de diez y tuve mucha suerte con mi familia, mi colegio y mis amigos. 
Ojalá que el año termine igual o mejor que el pasado.
Islandeses nos vemos en Agosto y Argentinos nos vemos hoy o mañana.
Adiós